Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 132 . mál.


Sþ.

911. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins [framhald].

    Á þingskjali 139 (132. mál), sem útbýtt var á Alþingi í nóvember sl., var gerð almenn grein fyrir starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union) og starfi Íslandsdeildar þess 1987–1988. Í þessari framhaldsskýrslu verður greint frá 81. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins, sem haldið var í Búdapest dagana 13.–18. mars sl., og annarri starfsemi á vegum Íslandsdeildarinnar.
    Á þessu ári eru liðin 100 ár frá stofnun Alþjóðaþingmannasambandsins, en þingmenn frá níu þjóðlöndum, þar á meðal Ungverjalandi, stóðu að stofnun þess. M.a. af þessum sökum var vorþingi sambandsins í ár valinn staður í Búdapest. Haustþingið verður í London í september, en Bretar voru einnig í hópi stofnenda Alþjóðaþingmannasambandsins.

Þingið í Búdapest.


    Þingið í Búdapest sóttu alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Geir Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson, auk Ólafs Ólafssonar, ritara deildarinnar. Einnig sótti Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis, fund skrifstofustjóra þjóðþinga innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn var á sama tíma.
    Þingið var með hefðbundnu sniði og sóttu það fulltrúar frá 94 þjóðþingum, en aðild að sambandinu eiga nú þingmenn í þjóðdeildum frá 112 ríkjum. Þjóðdeildir tveggja þjóðþinga voru teknar í samtökin á þinginu í Búdapest, frá Eþíópíu og San Marínó.
    Á dagskrá þingsins voru tvö aðalumræðuefni og viðbótarefni, sem ákveðið var á þinginu sjálfu, auk almennra umræðna um heimsmálin. Aðalumræðuefnin tvö voru barnavernd og réttindi barna annars vegar en hins vegar kynþáttaaðskilnaðarstefnan og málefni minnihlutahópa í einstökum ríkjum. Var í því sambandi ekki síst fjallað um þær ofsóknir sem Ungverjar í Rúmeníu og önnur þjóðarbrot þar í landi hafa orðið fyrir. Viðbótarefnið varðaði hugsanlega alþjóðlega ráðstefnu um frið í Miðausturlöndum og framlag þjóðþinga til að flýta henni.
    Samþykktar voru ítarlegar ályktanir um þessi málefni að undangengnum löngum umræðum og umfangsmiklu nefndastarfi.

Réttindamál barna.


    Norrænu sendinefndirnar á þinginu lögðu fram sérstakt minnisblað (memorandum) um réttindamál barna. Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, flutti ræðu í umræðunum um það efni og vék m.a. að þeim drögum að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna sem nú liggja fyrir. Fagnaði hann því að samkomulag hefði tekist um þessi drög sem nú væri unnt að leggja fyrir næsta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og kvaðst telja drögin verulegt skref fram á við.
    Viðhorf þjóða til barna sinna bæru vott um viðhorf til framtíðarinnar og baráttan gegn fátækt, ólæsi og sjúkdómum í heiminum væri ekki síst barátta fyrir börnin og framtíð þeirra. Íslensk barnalög, mjög í sama anda og samningsdrögin, hefðu verið sett fyrir nokkrum árum til að tryggja sem best réttindi barna á Íslandi. Á tímum aukinna samskipta milli landa væri hins vegar mikilvægt að samræmi væri í löggjöf einstakra ríkja um þessi efni og samkomulagsdrögin væru verulegt framlag í þá átt. Þannig þyrfti t.d. að tryggja rétt barna og hagsmuni í skilnaðarmálum þar sem foreldrar væru ekki af sama þjóðerni. Sérstaka áherslu bæri og að leggja á rétt fatlaðra og þroskaheftra barna. Lengra fæðingarorlof með aðild feðra og réttur til leyfis frá störfum til að annast veik börn væru mikilvæg hagsmunamál barna. Þá gæti sameiginlegt forræði í skilnaðarmálum einnig verið jákvætt í ýmsum tilvikum og nauðsynlegt væri að tryggja umgengnisrétt barns við báða foreldra þó að þeir væru ekki samvistum.
    Í lok ræðu sinnar vakti formaður athygli á því að samkvæmt þeim samkomulagsdrögum sem nú liggja fyrir væru börn skilgreind sem einstaklingar undir 18 ára aldri. Það stingi nokkuð í stúf að samkvæmt drögunum mætti þó kveðja einstaklinga á aldrinum 15–18 ára til herþjónustu. Þetta væri undarlegt ósamræmi í sáttmála um barnavernd.

Ræða þjóðarleiðtoga Ungverjalands.


    Hefð er fyrir því að stjórnarleiðtogar í löndum, þar sem þing Alþjóðaþingmannasambandsins eru haldin, ávarpi þingin. Karoly Grosz, leiðtogi ungverska kommúnistaflokksins, ávarpaði þingfulltrúa í Búdapest og útskýrði umbótastefnu stjórnar sinnar og lýðræðisþróunina í landinu. Vakti ræða hans mikla athygli, enda fjallaði hann á opinskáan hátt um innanlandsmál í Ungverjalandi og utanríkisstefnu landsins.
    Grosz sagði að Ungverjar fylgdust af athygli með þróun mála í Vestur-Evrópu og vildu auka samvinnu við Evrópubandalagið og Evrópuráðið. Einnig hefðu ungversk stjórnvöld áhuga á aukinni samvinnu við EFTA-ríkin. Ungverjar hefðu jákvæða reynslu af samskiptum við þingmannasamtök Atlantshafsbandalagsins og hefðu ungversk stjórnvöld áhuga á að beita sér fyrir fundi í Búdapest þar sem þingmenn í þeim samtökum gætu hitt kollega sína frá Varsjárbandalagsríkjunum. Ungverjar yrðu áfram aðilar að Varsjárbandalaginu en vildu leggja sitt af mörkum til að hernaðarbandalög í álfunni yrðu lögð niður. Þeir legðu áfram áherslu á gott samband við Sovétríkin og fögnuðu umbótastefnunni þar en hún færði slíkri stefnu annars staðar byr undir báða vængi.
    Hann vék einnig að stjórnmálasambandi Ungverjalands og Suður-Kóreu sem nýlega var komið á og sagði viðræður í gangi milli stjórnar sinnar og Ísraelsstjórnar um að koma á eðlilegu sambandi milli ríkjanna. Hann sagðist harma mannréttindabrot stjórnvalda í Rúmeníu og fagnaði stuðningi Evrópuþjóða við ungverska þjóðarbrotið í Rúmeníu og aðra minnihlutahópa þar í landi.
    Grosz sagði að miklir umbótatímar færu í hönd í Ungverjalandi í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Hins vegar þyrfti að fara með gát. Enginn í Unverjalandi hefði áhuga á nýjum þjóðarharmleik þar í landi.
    Því má bæta við að Ungverjar héldu upp á þjóðhátíðardag sinn, 15. mars, á meðan þingið stóð yfir. Mun það vera í fyrsta sinn í 40 ár sem hátíðahöld á þeim degi eru leyfð og fóru fjölmennar göngur um Búdapest og haldnir voru útifundir þar sem krafist var aukins frelsis og lýðréttinda.

Arafat ávarpar þingið.


    Við upphaf þingsins var gengið til atkvæða um það hvort heimila skyldi Yassir Arafat, leiðtoga Frelsissamtaka Palestínu, PLO, sem staddur var í Búdapest í boði ungverskra stjórnvalda, að ávarpa þingið. Var það samþykkt með 933 atkvæðum gegn 78 en 92 sátu hjá. Íslenska sendinefndin greiddi því atkvæði að Arafat fengi að ávarpa þingið, en ýmsir vestrænir þingmenn voru því andvígir af formsástæðum, þar á meðal hluti þingmanna frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum og fleiri ríkjum.
    Flutti Arafat ræðu sína á næstsíðasta degi þingsins og var vel fagnað, en í ræðu hans komu hins vegar ekki fram ný tíðindi að því er varðar stefnu PLO gagnvart Ísrael eða vandamálunum á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ferð í flóttamannabúðir í Debrecen.


    Að frumkvæði Svía var skipulögð ferð fyrir norræna þingmenn til hinnar fornu höfuðborgar Ungverjalands, Debrecen, skammt frá rúmensku landamærunum. Erindið þangað var að kynnast flóttamannavandamáli því sem Ungverjar búa við vegna straums flóttamanna frá Rúmeníu og sjá þær aðstæður sem flóttafólkinu eru búnar. Geir H. Haarde og Geir Gunnarsson fóru í þessa ferð og gafst þeim m.a. kostur á að hlýða á nokkra flóttamenn frá Rúmeníu sem lýstu ástandinu þar í landi og þeirri ógnarstjórn sem landsmenn búa við. Af lýsingunum að dæma virðist ljóst að miklar hörmungar ganga yfir þjóðarbrotin í Rúmeníu af völdum stjórnvalda þar í landi.
    Ljóst er einnig að það hefur valdið ungverskum stjórnvöldum verulegum vandamálum að þurfa að taka á móti þúsundum flóttamanna frá Rúmeníu á stuttum tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu eru á þriðja tug þúsunda flóttamanna frá Rúmeníu í Ungverjalandi. Margt af þessu fólki talar hins vegar ungversku og á auðvelt með að aðlagast þar í landi. Hafa ungversk stjórnvöld lagt sig fram um að útvega flóttafólkinu vinnu og húsnæði.

Samstarf vestrænna ríkja.


    Eins og jafnan höfðu þingmenn frá vestrænum ríkjum náið samstarf sín á milli á þinginu innan hins svokallaða „Tólf plús hóps“, sem kenndur er við ríkin tólf í Evrópubandalaginu. Tók íslenska sendinefndin að venju þátt í því samstarfi. Í hópnum eru nú þingmenn frá 26 ríkjum en í hópinn bættust að þessu sinni formlega Finnland og San Marínó. Finnar höfðu áður staðið utan við þetta samstarf og tengdu þátttöku sína í því aðild Finnlands að Evrópuráðinu sem nú er ákveðin. Öll ríki Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og Eyjaálfu, sem aðild eiga að OECD, eru nú aðilar að „Tólf plús hópnum“ auk nokkurra smáríkja í Evrópu.
    „Tólf plús hópurinn“ hélt undirbúningsfund fyrir Búdapest-þingið í Lissabon dagana næstu á undan, en Portúgalar hafa nú með höndum formennsku í hópnum. Enginn úr Íslandsdeildinni sótti þann fund. Hópurinn hélt síðan að vanda daglega samráðsfundi á fundarstað þar sem afstaða til einstakra mála var rædd og aðild að nefndarstarfi skipulögð.
    Ákveðið var að leggja fram sérstaka yfirlýsingu frá „Tólf plús hópnum“ vegna hótana Írana í garð breska rithöfundarins Salmons Rushdies og áhrifa slíkra yfirlýsinga á alþjóðleg samskipti. Var yfirlýsingin lögð fram í formi fréttatilkynningar á þinginu og stóðu allir þingmenn í „Tólf plús hópnum“ að henni. Í yfirlýsingunni voru hótanirnar gegn Rushdie harðlega fordæmar þótt jafnframt væri harmað að skrif rithöfundarsins hefðu móðgað og sært marga
múhameðstrúarmenn. Þess var krafist að hótanirnar yrðu afturkallaðar og skorað á írönsku fulltrúana á þinginu að vinna með öðrum fulltrúum að sáttum í málinu.
    Íranska sendinefndin svaraði með því að dreifa til þingfulltrúa annarri yfirlýsingu þar sem öllum slíkum tilmælum var afdráttarlaust hafnað og það ítrekað að rithöfundurinn væri glæpamaður er brotið hefði íslömsk lög sem dauðarefsing lægi við. Því væri ekki um „dauðahótanir“ að ræða heldur væri verið að fullnægja ákvæðum í íslömskum refsirétti. Var sérstaklega harmað að þingmenn frá múhameðstrúarríkinu Tyrklandi hefðu lagt nafn sitt við yfirlýsingu „Tólf plús landanna“. Þar við sat og af hálfu vestrænna þingmanna var ekki frekar aðhafst í málinu utan hvað ýmsir þeirra viku að málinu í ræðum sínum í almennum umræðum á þinginu.

Fundir þingmanna frá RÖSE-löndunum.


    Þingmenn frá löndunum 35, sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum frá 1975 (RÖSE-löndunum), hafa haldið reglulega fundi undanfarin ár innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins og rætt framgang mála í RÖSE-viðræðunum. Hefur þótt mikilvægt að þingmenn ræðist við um þessi mál sín í milli samhliða hinum opinberu viðræðum stjórnvalda. Síðast var slíkur fundur haldinn í Bonn vorið 1986 og var þá afráðið að næsti fundur yrði í Búkarest í maí 1989. Vegna ástandsins í Rúmeníu hafa vestræn ríki hins vegar lagst gegn því að fundurinn verði haldinn þar í landi og hefur honum verið frestað um óákveðinn tíma. Þessari ákvörðun hafa Rúmenar harðlega mótmælt, en af fundinum getur ekki orðið fyrr en náðst hefur allsherjarsamkomulag (consensus) um fundarstað og fundartíma.

Norrænt samstarf.


    Formenn norrænu þjóðdeildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu áttu með sér fund í Ósló í febrúar til undirbúnings þinginu í Búdapest. Þar var meðal annars ákveðið að senda bréf til ríkisstjórna sex ríkja þar sem Alþjóðaþingmannasambandið telur sannað að mannréttindi nafngreindra þingmanna hafi verið brotin, þeir verið fangelsaðir án dóms og laga eða horfið sporlaust. Í þessum bréfum var skorað á viðkomandi stjórnvöld að rannsaka og upplýsa mál þessara einstaklinga. Ríkin sex eru Kólombía, Hondúras, Malasía, Indónesía, Chile og Gínea-Bissá og voru bréfin send til nálægustu sendiráða þeirra. Svar hefur aðeins borist frá sendiráði Chile í Noregi og segir þar að einn þeirra þriggja þingmanna, sem nefndur er í bréfinu, hafi þegar verið látinn laus en ekki sé vitað um afdrif hinna tveggja. Verði mál þeirra áfram til athugunar.

Þátttaka Íslandsdeildarinnar í starfsemi Alþjóðaþingmanna-


sambandsins á næstunni.


    Íslandsdeildin fékk til ráðstöfunar á fjárlögum 2.585 þús. kr. til starfsemi sinnar. Rennur framlagið til greiðslu aðildargjalds til sambandsins og þátttökugjalds í „Tólf plús hópnum“ auk kostnaðar við þátttöku í þingum og ráðstefnum sambandsins. Borist hafa tilmæli frá forsetum Alþingis um að útgjöld deildarinnar verði lækkuð um sem næst 150 þús. kr. í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um 7% lækkun ferðakostnaðar og risnu hjá hinu opinbera. Verður reynt að verða við þeim tilmælum.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins var í þessum mánuði haldin ráðstefna í Haag um ferðamál og aðild þjóðþinga að því að auka ferðamannastraum landa í milli. Engin þátttaka var af Íslands hálfu í þeirri ráðstefnu.
    Auk haustþingsins í London í september, þar sem minnst verður 100 ára afmælis sambandsins, er ráðgerð ráðstefna í Madrid í október um þátttöku kvenna í stjórnmálum. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þátttöku í þeirri ráðstefnu í starfsáætlun deildarinnar fyrir 1989.
    Óvíst er hvort fundur þingmanna RÖSE-landanna verður á þessu ári, en þó er hugsanlegt að af honum verði seint á árinu, t.d. í Genf. Ekki er fyrir hendi fjárveiting til þátttöku á þeim fundi á þessu ári.
    Næsta reglulegt þing Alþjóðaþingmannasambandsins eftir afmælisþingið í London verður í Níkosíu á Kípur í apríl á næsta ári.

Starfsreglur fyrir Íslandsdeildina.


    Íslandsdeildin hefur að undanförnu unnið að undirbúningi starfsreglna fyrir deildina, en eðlilegt er og í samræmi við lög Alþjóðaþingmannasambandsins að slíkar reglur séu settar. Þá hafa lög sambandsins verið þýdd á íslensku. Er vonast til að unnt verði að setja deildinni starfsreglur fyrir þinglausnir í vor eða í upphafi þings næsta haust.

Alþingi, 24. apríl 1989.



Geir H. Haarde,

Ólafur Ólafsson,


form.

ritari.